Bringusundstæknin
Unnið á Vöðvabólgu og Hraðinn aukinn

Margir þjást af vöðvabólgu í herðum og öxlum og er sund mjög góð leið til að vinna á henni. En til þess að geta unnið á vöðvabólgunni þarf að gera hlutina rétt því annars er hætta á að vöðvabólgan versni bara.


Unnið á vöðvabólgu

Til þess að ná réttri legu í vatninu ættirðu að prófa að fljóta alveg slakur/slök og horfa beint niður fyrir þig á botninn. Gerðu það núna þegar þú lest þetta að standa upp, vera bein(n) í baki og horfa beint fram. Réttu síðan hendurnar beint upp og hafðu höfuðið á milli handanna, þetta er staðan sem þú átt að vera í eftir fótatakið í bringusundinu og þá horfirðu á botninn beint fyrir neðan þig.

Um leið og þú byrjar handatakið eftir rennslið (og þessa stöðu sem ég var að lýsa fyrir þér) áttu að byrja að líta fram á við, þannig að þegar þú kemur upp úr með höfuðið til að anda að þér þá horfirðu beint fram á við.

Eftir innöndun (og þú með höfuð á niðurleið) byrjaðu þá að lýta í áttina að botninum þannig að þegar þú ert að byrja rennslið eftir fótatakið sértu aftur kominn í þessa stöðu að horfa á botninn beint fyrir neðan þig.

Þegar þú ert farin(n) að synda bringusund á þennan hátt, þ.e. að horfa fram á við í innöndun og horfa svo á botninn beint fyrir neðan þig í rennslinu ferðu að losa um vöðvabólgu í herðum og öxlum. Því við þessa höfuðhreyfingu þá ertu farinn að spenna  og slaka til skiptis á vöðvunum í stað þess að vera með þá í stöðugri spennu ef þú horfir alltaf fram á við eins og margir gera !

Annað sem þú græðir á þessari höfuðhreyfingu (ef það skipti þig einhverju máli) er að þú syndir hraðar vegna þess að mótstaðan minnkar þegar þú ert með höfuð á milli handanna í rennslinu - því þú verður eins og spjót sem klýfur vatnið.


Fótatökin í Bringusundinu

Hægt er að auka kraftinn í bringusundsfótatökum og ná þá meiri hraða og um leið meira rennsli í kjölfar fótataksins. En þessi breyting getur aukið álagið á hnjáliðina og það eru ekki allir sem þola það eða meiga.

Ferill fótatakanna þarf að vera þannig að sem minnst mótstaða verði þegar þú ert að undirbúa spyrnuna (sparkið).

Þegar þú ert í floti og rennsli eftir fótatakið þá ertu eins og spjót að kljúfa vatnið. Þú þarft alltaf að reyna að vera með sem minnsta mótstöðu til að draga ekki úr ferðinni. Þegar þú beygir svo hnén til þess að undirbúa sparkið þarftu að  taka eftir að þú gerir ekki annað hvort af eftirfarandi sem flestir gera og hægja þannig verulega á hraðanum:

 • Ekki fara það mikið í sundur með hnén að þau fari út fyrir axlarlínuna því þá verður svo mikil mótstaða. Þegar lærin á þér eru komin út fyrir línuna á móti vatni sem er ekki á hreyfingu þá hægir verulega á þér.
 • Ekki heldur draga hnén niður og fram á við því þá skeður það sama að lærin fara á móti vatni sem er ekki á hreyfingu og þú ert þá í rauninni að bremsa.

Þegar þú syndir þá dregurðu á eftir þér vatn - það verður straumur á eftir þér. Þetta finnurðu vel ef þú syndir á eftir einhverjum og ert nógu nálægt honum til þess að lenda í straumnum - þá verður léttara fyrir þig að synda - þú þarft ekki að taka eins mikið á til þess að halda hraðanum.

Það sem keppnismenn gera er að þegar þeir taka handatakið þá láta þeir mjaðmirnar síga dýpra og draga svo hælana upp í átt að yfirborðinu að mjöðmum án þess að hné fari fram á við eða út fyrir axlarlínuna.

Ef þú gerir þetta þá ertu að draga hælana upp í vatn sem þú ert að draga á eftir þér, þ.e. í strauminn og þannig verður mótstaðan minnst.

Ef þú hefur ekki verið að synda svona þá er ekki ósennilegt að þú munir lenda í því þegar þú reynir þetta að fætur fari jafnvel í yfirborðið eða upp úr og fótatakið verður þá afspyrnuslakt.

Það þarfnast svolítillar æfingar að ná tökum á þessu en ef fætur fara upp í yfirborðið þá ertu ekki að ná því að láta mjaðmir síga nógu djúpt. Reyndu þá að þrýsta mjöðmum dýpra og hafa jafnvel á tilfinningunni að þú sért að þrýsta þeim fram á móti vatninu. Eins getur verið að þú þurfir að koma hærra upp úr þegar þú tekur handatakið.

Með því að synda svona þá kemur mjaðmahreyfing í sundið - mjaðmir fara djúpt niður þegar þú tekur handatakið en þú verður síðan að passa að mjaðmir nái að renna aftur upp í yfirborðið í lok fótataksins og í rennslinu.

Nú er komið að því að vera með Froskafætur
Þegar þú ert kominn í þessa stöðu - búin(n) að beygja hnén og fá hælana upp að mjöðmum þá þarftu að sjálfsögðu að ná góðri kreppu (verða eins og froskur), þ.e. eins útskeif(ur) og þú getur og fetta tærnar þannig að það sé eins og þær séu að reyna að kíkja á hnén.

Nú er komið að sparkinu (spyrnunni skjálfri)
Þegar þú spyrnir loksins þá þarftu að ná því að spyrna (sparka) í hring út fyrir hnén.

Það er við þessa spyrnu og snúning sem álagið á hnén er það mikið að margir þola það alls ekki og/eða meiga bara ekki gera þetta svona. Algengustu meiðslavandamál hjá bringusundsmönnum (keppnismönnum) eru hnjávandamál því þessi hreyfing er það mikið álag á hnjáliðina.

Bringusundshandatökin

Rétt ferli í handatökunum er þannig að eftir rennslið sem kemur í kjölfar fótataksins þá byrjar þú að aðskylja hendur þannig að þær færist í sundur að axlarbreidd þinni. Þú ert í rauninni bara að stilla höndunum upp áður en hið eiginlega handatak hefst.

Handatakið hefst svo á því að þú byrjar að ýta lófunum niður og út fyrir olnboga (sjá mynd að ofan) og svo saman undir höku og áfram fram og upp undir yfirborð vatnsins.

Það sem þarf að vara sig á í handatakinu er að handatakið verði ekki of stórt og að olnbogar fari ekki aftur fyrir axlir.

Það sem gefur aðaltrukkið í handatakinu ef það er tæknilega rétt er hreyfingin þegar þú ert að koma saman með hendurnar undir höku. Trukkið næst með því að auka hraðann í gegnum takið þannig að hraðinn sé mestur í hreyfingunni að koma saman með hendurnar.

Þessu nærðu samt ekki ef takið er of stórt - þú getur prófað þig áfram með því að taka handatakið og kötta (klippa) það þegar þér finnst þú vera einungis kominn með hálft tak, þ.e. ekki klára seinni helminginn af takinu heldu kötta það snemma og koma saman.

Ef þú hittir á þetta þá getur þér fundist að þetta geti ekki staðist vegna þess að þetta er svo létt og miklu léttara en þú hefur upplifað áður. En taktu eftir því ef þú syndir jafn hratt eða hraðar en áður þá ertu að hitta á þetta.

Þegar þú hefur fest þessa samhæfingu í sessi þá geturðu farið að auka hraðann (synda hraðar), en það gerirðu með því að auka hraðann í gegnum handatakið (auka hraðann í gegnum fótatakið líka) þannig að hraðinn sé mestur í hreyfingunni þegar þú ert að koma saman með hendurnar undir bringu (höku).


Bringusundstakturinn

 • Eftir rennslið þá byrjarðu að aðskylja hendurnar og kíkja fram á við.
 • Þegar handatak byrjar - kíkirðu fram - mjaðmir síga - byrjar að færa hæla í átt að mjöðmum
 • Fótaspyrnan (sparkið) er um leið og þú hefur lokið klappinu og byrjar að færa hendur fram.
 • Rennsli - horfa á botninn - vera eins og spjót

Það eru ýmis atriði sem þú þarft að hafa í huga þegar þú syndir bringusund:

 • horfa beint niður á botninn í rennslinu þ.e. vertu með höfuðhreyfingu.
 • Passaðu að fingur séu nálægt yfirborðinu í renslinu - þá er auðveldara að koma upp úr og taka innöndun í handatakinu.
 • Gefðu eftir í bakinu og komdu í sveig upp í öndunina (þrýstu mjöðmum niður og fram á móti vatninu).
 • Leyfðu mjöðmum að fljóta aftur upp í yfirborðið eftir fótatakið þ.e. í rennslinu (það er auðveldara ef höfuðið fer í kaf og þú horfir beint niður á botninn í rennslinu).
 • Passaðu þegar þú tekur handatakið að fingur séu alls ekki í eða ofan yfirborðs vatnsins því þá myndast mikið af loftbólum sem fylgja þér í gegnum allt takið og það verður mun veikara handatak.
 • Taktu eftir hvort það sé góður öndunartaktur hjá þér. Fylla lungun (í gegnum munn) og anda frá þér í kafi í gegnum munn eða nef og tæma lungun.

Ég vona að þú getir haft eitthvað gagn af þessum punktum - en ef eitthvað er óljóst eða þú hefur einhverjar spurningar hafðu þá samband og ég mun reyna að skýra þetta betur.

New! Comments

Vertu í sambandi !