Fótatökin í Skriðsundinu

Hreyfing fótarins

Aðalhreyfing fótataksins er frá mjöðm með beygju hreyfingu um hnéð. Ristin þarf að vera vel teigð og þú þarft að vera innskeif(ur).

Hreyfing fótarins er ekki ósvipuð því og að sparka bolta með ristinni. Önnur samlíking er að hreyfing fótarins sé eins og slegið sé með svipu. Hreyfingin byrjar við mjöðm með smá beygju um hné og svo snapp frá ökkla (sem þarf að vera laus til að ná snappinu) yfir í rist sem þarf að vera teygð og innskeif.

Fótatökin stjórna taktinum(tempóinu) í skriðsundinu og eftir því sem þau eru hraðari eykst takturinn(hraðinn) á handahreyfingunum.

Þegar þú ert að þjálfa upp lipra og áreynslulausa öndun er nauðsynlegt að vera með róleg og löng handatök og rúlla vel á hliðarnar. En það er erfitt ef takturinn í fótatökunum er hraður.

Taktur fótatakanna

Það eru til margir mismunandi taktar í fótatökunum. Einn sá algengasti er þannig að það koma 2-3 létt spörk en svo kemur hlé á spörkunum um leið og innöndun á sér stað. 

Reyndu að synda með mjúkum rólegum fótahreyfingum sem líkjast meira léttu jafnvægi og það mun detta inn einhver taktur sem hentar þér.

Það er hið besta mál ef þú tekur eftir því að fótatökin séu óregluleg þ.e. með reglulegum hléum. Það reynir meira á að vera með stanslausa fótavinnu og hentar í raun einungis þrautþjálfuðum sundmönnum.

Vandamál - Fætur vilja sökkva

Yfirleitt vilja fætur og mjaðmir sökkva vegna þess að viðkomandi sundmaður gerir eitthvað af eftirfarandi:

  • Liggur of hátt með höfuðið í vatninu
  • Horfir fram á við í staðinn fyrir á botninn
  • Lyftir höfðinu við innöndun
  • Teygir hökuna fram í innöndun

Ef þú horfir fram á við í kafi eða liggur hátt með höfuðið í vatninu, þá getur verið erfitt fyrir þig að halda láréttri og góðri legu í vatninu. Mjaðmir og fætur síga dýpra í vatninu og legan fer að hallast of mikið í lóðrétta stöðu sem veldur meira mótstöðu í vatninu.

Þegar legan er farin að aflagast svona, þá byrjar meiri fótavinna til að vinna á móti því að fætur sökkvi. Það eru stórir vöðvar í fótleggjunum sem þurfa þá alltaf meira og meira súrefni þannig að það endar með því að þú getur ekki meir - þú verður að hvíla þig!

Það hefur hjálpað mörgum sem hafa verið í vandræðum með að mjaðmir og fætur hafa viljað síga helst til mikið, að reyna eftirfarandi:

  • Syntu yfir stórann bolta -  Ímyndaðu þér þegar þú syndir skriðsundið að þú sért að synda yfir stórann bolta án þess að þú meigir snerta hann!
  • Syntu niður bratta brekku - Vertu ákveðin(n) í þegar þú syndir skriðsundið að þú sért að synda niður bratta brekku!

Það að einbeita sér að Boltanum og/eða Brekkunni hefur hjálpað mörgum til þess að fá mjaðmir og fætur upp í yfirborðið þannig að legan á sundinu hefur lagast

New! Comments

Vertu í sambandi !