Legan í Skriðsundinu

Að liggja rétt í vatninu - Notaðu Höfuðið Rétt !

þegar þú syndir skriðsund vertu þá með höfuðið vel í vatninu (einungis hnakkann upp úr) og horfðu á botninn beint fyrir neðan þig. Alls ekki horfa fram á við (það er hvort eð er ósennilegt að það sé eitthvað svo spennandi framundan, þó það geti svo sem komið fyrir)!

Fyrsta skrefið til þess að ná góðum tökum á skriðsundinu er að ná réttri legu í vatninu en það fellst í því að fljóta lárétt með mjaðmir og fætur nálægt yfirborðinu. Til að ná legunni réttri þá þarf höfuðið að vera vel í vatninu og þú þarft að horfa á botninn fyrir neðan þig (nema í innöndun), en alls ekki horfa fram á við.

Þegar þú nærð legunni réttri áttu miklu meiri möguleika á að þjálfa upp og ná liðlegu öndunarferli. Ég mæli með að þú syndir nokkur tök á skriðsundinu með höfuð í kafi (ekki reyna að anda að þér) og horfir beint niður fyrir þig, taktu um leið eftir því hvernig mjaðmir og fætur liggja í vatninu.

Þegar þú bætir öndunarferlinu við, taktu þá eftir því hvort mjaðmir og fætur haldi sama floti og þegar þú slepptir því að anda.

Ef fætur og mjaðmir sökkva í innöndun er líklegt að þú sért að lifta höfðinu upp úr vatninu (eyrað sé ekki á kafi) eða þú sért að kíkja fram á við þegar þú sækir þér súrefni.

Tökum sem dæmi að þú andir að þér hægra megin. Þá þarftu að snúa höfðinu til hægri um leið og hægri höndin byrjar takið ofan í vatninu. Einnig þarftu um leið að rúlla vel yfir á vinstri hliðina. Vinstra eyrað þarf að vera á kafi og þú átt að sjá til hliðar við þig en ekki fram- eða aftur fyrir þig.

Ef þú hækkar höfuðstöðuna, t.d. með því að kíkja fram á við, eða liftir höfðinu til hliðar frá vatninu þannig að vinstra eyra sé nánast komið upp úr, þá sökkva mjaðmir og fætur og þú missir láréttu leguna, en við það stóreykst mótstaðan.

Það er ein af algengari villum hjá þeim sem synda skriðsund að horfa of mikið fram á við þegar andlitið er í kafi. Við það hafa mjaðmir og fætur tilhneygingu til að sökkva dýpra þannig að legan aflagast og mótstaðan eykst.

Ósjálfrátt og til að vinna á móti því að mjaðmir og fætur sökkvi þá eykst tíðni fótatakanna, en þá er verið að virkja stærstu og orkufrekustu vöðvana í að halda legunni réttri og til að halda sér á floti.

Bara þetta litla atriði (höfuðstaðan) er í rauninni stórt atriði þegar allt kemur til alls. Því ef höfuðstaðan er ekki í lagi og þú þarft að virkja stóru vöðvana til að vinna á móti því að fætur og mjaðmir sökkvi þá verður þreytan svo afskaplega fljót að aukast og þú nærð ekki að synda langt hvíldarlaust!!!

Passaðu Höfuðstöðuna! Horfðu á botninn beint fyrir neðan þig Þegar andlit er í kafi (einungis hnakkinn er upp úr vatninu). Liggðu með eyrað á kodda þegar þú andar að þér, ekki lifta höfðinu til hliðar og frá vatninu!!!

Að liggja rétt í vatninu - Notaðu Hendurnar rétt !

Atriði sem mörgum yfirsést þegar þeir synda skriðsund er að:
Höndin sem er frammi nálægt yfirborði vatnsins á alltaf að bíða eftir að hin höndin klári takið og nánast komi til hennar. Þ.e. að höndin sem klárar takið þarf að ná því að fara vel fram á við áður en höndin frammi má byrja sitt tak.

Ef höndin frammi bíður ekki eftir hinni höndinni skapar það vandamál í takti sundsins og gerir það nánast ómögulegt að vera með rétta tímasetningu til að ná fullnægjandi innöndun.

Handatakið: Handatakið byrjar frammi og kemur í sveig undir þig í átt að naflanum. Þú nærð sveignum með því að beygja hendina smám saman meira og meira um olnbogann og stefna að því að lófinn nálgist naflann (takið er aldrei tekið með beinni hendi, en beigjan um olnbogann má heldur ekki vera of mikil).

Handatakið kemur svo í sveig út aftur við mjöðmina. Þú þarft að ná því að reka þumalputtann efst á lærið og klára svo takið með því að rétta alveg úr hendinni.

Fáðu tilfinningu fyrir því þegar þú tekur takið, að þú sért að fá átakið í lófann og sópir vatninu undir og aftur fyrir þig.

Að liggja rétt í vatninu - Notaðu Fæturnar rétt !

Þú þarft að ná því að liggja lárétt í vatninu þannig að fætur og mjaðmir séu upp undir yfirborðinu. þannig áttu að geta í fótahreyfingunum myndað smá skvettu með tánum(án þess að beygja hnén of mikið).

Aðalhreyfing fótataksins er frá mjöðm með beygju hreyfingu um hnéð. Ristin þarf að vera vel teigð og þú þarft að vera innskeif(ur).

Hreyfing fótarins er ekki ósvipuð því og að sparka bolta með ristinni. Önnur samlíking er að hreyfing fótarins sé eins og slegið sé með svipu. Hreyfingin byrjar við mjöðm með smá beygju um hné og svo snapp frá ökkla (sem þarf að vera laus til að ná snappinu) yfir í rist sem þarf að vera teygð og innskeif.

Fótatökin hjálpa til með að halda réttri legu á sundinu og eins stjórna þau taktinum(tempóinu) í sundinu. Eftir því sem fótatökin eru hraðari og kraftmeiri eykst takturinn(hraðinn) á handahreyfingunum.

Hröð kröftug fótatök er það sem sprengir flesta, því notaðir eru stórir og orkufrekir vöðvar sem þurfa mikið súrefni. Það er því ekki hentugt að fótatökin séu hröð eða kröftug þegar unnið er að tækniatriðum skriðsundsins.

Þegar þú vinnur að réttri tímasetningu innöndunar, að hún verði lipur og áreynslulaus, er nauðsynlegt fyrir þig að vera með róleg löng handatök, ásamt góðu rúlli á hliðarnar. En það getur verið erfitt að ná því ef takturinn í fótatökunum er mjög hraður eða kröftugur. Reyndu því að fá tilfinningu fyrir því að fótatökin séu meira sem létt jafnvægishreyfing þannig að þú náir að halda púlsinum frá því að rjúka upp úr öllu valdi.

Ef mjaðmir og fætur vilja síga, þegar þú syndir skriðsundið, þó þú passir að nota höfuðið rétt, hættu þá augnablik að synda. Gefðu þér tíma í að slaka vel á og prófaðu að fljóta með báðar hendur frammi nálægt yfirborðinu og með höfuð vel í kafi.

Taktu eftir hvort þú slakir ekki örugglega vel á - að höfuðið sé nógu djúpt - og að þú horfir örugglega beint niður á botninn, en ekki fram á við! Hvar eru mjaðmir og fætur?
Fljóta mjaðmir og fætur við yfirborðið? Kannski þarftu að vera með létt fótatök þannig að fætur sökkvi ekki. Ef þú getur þetta, fengið mjaðmir og fætur upp í yfirborðið þá geturðu það líka þegar þú syndir skriðsundið!

Það hefur hjálpað mörgum sem hafa verið í vandræðum með að mjaðmir og fætur hafa viljað síga helst til mikið, að reyna eftirfarandi:

  • Syntu yfir stórann bolta -  Ímyndaðu þér þegar þú syndir skriðsundið að þú sért að synda yfir stórann bolta án þess að þú meigir snerta hann!
  • Syntu niður bratta brekku - Vertu ákveðin(n) í þegar þú syndir skriðsundið að þú sért að synda niður bratta brekku!

Það að einbeita sér að Boltanum og/eða Brekkunni hefur hjálpað mörgum til þess að fá mjaðmir og fætur upp í yfirborðið þannig að legan á sundinu hefur lagast.

Skoðaðu fleiri tækniatriði:

Öndunarferillinn - Hvenær á að anda ? - Algengar villur í öndunarferlinu...
Fótatökin - Ferill tótatak - Taktur fótataka - Vandamál í fótatökum...

New! Comments

Vertu í sambandi !